Lög VFA

1. Félagið heitir Vélflugfélag Akureyrar.
2. Heimili og varnarþing þess er á Akureyri.
3. Markmið og tilgangur félagsins er að:
a) treysta tengsl milli þeirra sem áhuga hafa á vélflugi
b) vera hagsmunasmtök flugvélaeigenda
c) auðvelda félagsmönnum upplýsingaöflun um flug og flugnám og
d) stuðla að endurmenntun og bættu öryggi í einkaflugi.
4. Félagi getur sá orðið, sem náð hefur 16 ára aldri. Gjaldkeri sér um nýskráningu félaga. Þótt félagið heiti Vélflugfélag Akureyrar er það opið öllum flugáhugamönnum.
5. Aðalfund skal halda í marsmánuði ár hvert og skal boða hann skriflega/rafrænt með
minnst sjö daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Úrslitum mála ræður einfaldur meirihluti, en falli atkvæði jafnt skal hlutkesti ráða.
Verkefni aðalfundar eru þessi:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Lagðir fram ársreikningar.
3. Lagabreytingar.
4. Kjör stjórnar og eins endurskoðenda.
5. Ákveðin upphæð árgjalds.
6. Önnur mál.
6. Rétt til setu á aðalfundum hafa þeir einir sem lokið hafa greiðslu árgjalds liðins starfsárs. Hafi félagsmaður ekki greitt árgjald í tvö ár þá fellur hann af félagaskrá og verður honum tilkynnt það skriflega.
7. Stjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum, formanni, gjaldkera, ritara og tveimur meðstjórnendum. Annar meðstjórnandinn skal vera fulltrúi Flugskóla Akureyrar. Stjórnin skal kosin leynilega til eins árs í senn. Formaður skal kjörinn sérstaklega, en aðrir stjónarmenn skulu kjörnir í einu og ræður afl atkvæða kosningu. Stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti. Í forföllum formanns kýs stjórnin staðgengil hans úr eigin hópi. Kjörinn skal 1 endurskoðandi.
8. Formaður boðar til stjórnarfunda. Honum er skylt að halda stjórnarfund ef a.m.k. 2 stjórnarmanna krefjast þess.
9. Formaður hefur yfirumsjón með rekstri félagsins. Hann einn hefur fullt umboð til að undirrita skjöl og skuldbindingar með samþykki stjórnar fyrir hönd félagsins, þó skal boða til félagsfundar um allar meiri háttar ákvarðanir. Ritari sér um allar bréfaskriftir og skýrslugerðir aðrar en reikninga. Hann hefur umsjón með skjalasafni félagsins og skal halda fundargerð um almenna fundi og stjórnarfundi og lesa á fundum fundargerð síðasta fundar. Gjaldkeri sér um fjármál félagsins og skal hann halda bókhald yfir þau. Sjóði félagsins skal hann ávaxta í banka. Allar greiðslur skulu fara í gegnum tékkareikning félagsins.
10. Stjórnin boðar til félagsfunda með dagskrá eftir því sem ásæða þykir til. Skylt er að halda félagsfund ef 2 stjórnarmenn eða 15 félagsmenn krefjast þess. Félagsfundir geta hnekkt ákvörðun stjórnar.
11. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf til þess atkvæði 2/3 þeirra sem fundinn sitja.
12. Ekki er hægt að slíta félaginu nema á aðalfundi þar sem helmingur fullgildra félaga er mættur og verða ¾ þeirra sem fundinn sitja að samþykkja slit á félaginu. Þá skal jafnframt ráðstafa eignum félagsins og skulu þær renna óskiptar í sjóð Flugklúbbs Íslands til uppbyggingar og viðhalds á svæði klúbbsins á Melgerðismelum í Eyjafjarðarsveit.