um félagið

Um félagið

Vélflugfélag Akureyrar (VFA) er áhugamannafélag um einkaflug. Rætur félagsins liggja aftur til níunda áratugarins þegar einkaflugið stóð með miklum blóma hér á Akureyri. Félagið er málpípa einkaflugmanna á Akureyri og hagsmunasamtök þeirra jafnframt því að stuðla að endurmenntun og bættu öryggi innan geirans. Starfsemi VFA miðar einnig að því að fá áhugasama einstaklinga í félagið, auka tengsl milli þeirra sem áhuga hafa á vélflugi og auðvelda félagsmönnum sínum upplýsingaöflun um ýmislegt varðandi einkaflug og ekki hvað síst flugnám ef það er uppi á teningunum. Rétt er að leggja þunga áherslu á það að félagið er hreint ekki bara fyrir þá sem eiga flugvél og/eða lokið hafa einkaflugmannsprófi. Hver sem áhuga hefur á einkaflugi eða flugi almennt getur gerst félagi í VFA!
Langar þig lesandi góður að vera hluti af félagsskap sem snýst um flug? Ertu að gera upp við þig hvort þú sért bara áhugasamur áhorfandi að flugi eða viljir láta gamlan draum rætast og fljúga sjálfur? VFA gæti verið vettvangur þar sem þú áttar þig betur á hvar þú stendur án þess að kosta miklu til. Félagsmenn greiða hóflegt árgjald (að flestra mati) sem notað er til að standa straum af ýmsum kostnaði t.a.m. við samkundur af ýmsu tagi. Hægt er að fá nánari upplýsingar með því að senda póst á eða hreinlega gerast brattur og mæta í vöfflukaffið sem er fastur liður hjá félaginu kl. 15 hvern laugardag árið um kring.

Starfsemi félagsins er nokkuð breytileg eftir árstíma eins og gefur að skilja. Sumarið er sá tími sem flogið er mest og fer mestur hluti félagsstarfsins þá fram á Melgerðismelum í Eyjafjarðarsveit. Þar hefur félagið aðgang að hreint frábærri aðstöðu Flugklúbbs Íslands, öðru nafni Flugstöð Þórunnar Hyrnu. Á veturna er hins vegar minna flogið en meira spjallað. Fer þá félagsstarfið fram á Akureyrarflugvelli í nýju húsnæði Flugskóla Akureyrar (flugskýli 13).